mánudagur, 13. júlí 2015

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fagnaði ég afmælinu mínu í Whitby, sögulegum og fallegum bæ við sjávarsíðu North Yorkshire. Höfnin skiptir bænum í tvennt og er gamli hlutinn á austurbakkanum. Í Whitby má finna gömul hús, þröngar hellulagðar götur frá miðöldum, fallegar búðir, litríkar hurðir, krár, kaffihús, sandstrendur, kletta, svo við gleymum ekki frægum rústum Whitby Abbey, gotnesku kirkjunnar sem stendur á East Cliff-klettinum.
Höfnin í Whitby · Lísa Hjalt


Whitby hljómar örugglega kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lesið klassísku, gotnesku hryllingssöguna Drakúla eftir Bram Stoker. Rússneskt skip sem Drakúla greifi ferðast með til Englands strandar við Whitby. Hann kemur í land í dulargervi svarts hunds og hefst þá „fjörið“! Eftir að hafa komið til Whitby þá verð ég að segja að sögusviðið er fullkomið.
Smábátahöfnin í Whitby með North York Moors-þjóðgarðinn í bakgrunni

Útsýnið í allar áttir frá tröppunum 199 er stórkostlegt. Þegar maður horfir yfir gömlu, rauðu húsþökin þá er eins og maður ferðist aftur í tímann eða að maður sé staddur í ævintýri. Ég mæli með því að labba inn í bæinn niður þessar tröppur sem eru með aðliggjandi hellulagðri brekku (það eru bílastæði á East Cliff-klettinum við rústir Whitby Abbey). Þegar farið er niður tröppurnar gengur maður beint inn í Church Street-götuna (sjá myndirnar hér að neðan), sem er sjarmerandi, þröng, hellulögð gata þar sem finnast alls kyns búðir, krár og kaffihús.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt


Hvert sem litið er má finna eitthvað sem vert er að festa á filmu en á laugardaginn var bærinn pakkaður af fólki, sem gerði myndatöku erfiða. Við keyrðum til Whitby og til að aka inn í bæinn þarf að aka í gegnum North York Moors-þjóðgarðinn, sem er með fallegu landslagi.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Hjalt
Marie Antoinette's Patisserie-bakaríið í Church Street-götunni

Ég kom auga á eitt í Whitby sem pirraði mig (ekki í fyrsta sinn). Þegar við vorum að labba í Church Street-götunni þá sá ég skilti bakarísins Marie Antoinette's Patisserie með orðunum 'let them eat cake' (látum þau borða kökur). Franska drottningin er gjarnan ranglega tengd við þessi orð, sem hún átti að hafa mælt þegar henni var tjáð að lýðurinn hefði ekki efni á brauði. Staðreyndin er sú að hún sagði þetta aldrei, heldur var þetta bara hluti af áróðri Frönsku byltingarinnar. Það vill svo til að í töskunni minni var ég með eintak af Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser (snemmbúin afmælisgjöf frá eiginmanninum). Fyrir nokkrum árum síðan las ég ævisöguna Marie Antoinette: The Journey eftir Fraser þar sem hún leiðréttir látum-þau-borða-kökur lygasöguna og mér finnst það beinlínis vera skylda mín að gera svo hér, ef þið rækjuð augun í orðalagið á skilti bakarísins sem ég tók mynd af.



Ég tók nokkrar myndir af rústum Whitby Abbey-kirkjunnar, sem ég deili kannski síðar. Eins og ég sagði fyrr þá var svo mikið af fólki í Whitby sem torveldaði myndatöku. Þessi ferð var auk þess til skemmtunar fyrir fjölskylduna og ég vildi helst hlífa fólkinu mínu við því að þurfa stöðugt að stoppa á meðan ég mundaði linsuna. Hugmyndin er annars sú að fara aftur til Whitby á virkum degi og ég get þá skellt mér í göngutúr með myndavélina á meðan liðið flatmagar á ströndinni.


2 ummæli:

  1. Virkilega fallegar myndir af fallegum stað. Nú langar mig til Whitby!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk, takk, ég greinilega náði bara ágætis myndum eftir allt saman! Whitby er algjörlega málið ef ferðast er til North Yorkshire.

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.